…eins og nárakkinn klóri á dyr

Aurora Arktika in Greenland

Hannes Hafstein var sýslumaður á Ísafirði og seinna fyrsti ráðherra Íslendinga. Árið 1903 fékk hann far til Akureyrar á hvalveiðibáti frá Hans Ellefsen á Sólbakka í Önundarfirði. Útaf Horni lentu þeir í hafís og tók það skipstjórann nokkra stund að finna leið gegnum hann. Reynsla Hannesar úr þessari ferð hefur án efa orðið innblástur að kvæðinu „Í hafísnum“ en þar eru meðal annars eftirfarandi erindi:

Eða hefir þú lent í hafísnum þá
við Horn eða Langanes,
og skoðað og heyrt ‘hann skipsfjölum frá,
er hann skraf sitt við rastirnar les?
Ei er háreysti neitt,
en það hljóð er þó leitt,
er ‘ann hrönglast við byrðings skurn,
meðan breiðan köld
leggur skjöld við skjöld,
en skrúfar þó turn við turn.

Sem óvígur floti með öfug segl
er ómurlegt hafjaka-þing,
og ísnála þoka með haglskýja-hregl
er hervörður allt í kring.
Glórir glæta köld
niðr’ í glufufjöld,
eins og Glámsaugu stari þar kyr.
En um nökkva súð
er æ napurt gnúð,
eins og nárakkinn klóri á dyr.

S-020

Rúmri öld síðar átti Haukur Sigurðsson örðugt um svefn frammí stefni skútunnar Auroru þegar hún moðaðist gegnum íshröngl á leiðinni suður með strönd austur Grænlands. Fannst honum hljóðið leitt, er hafísinn hrönglaðist við byrðingsins skurn. Það er skiljanlegt þar sem aðeins nokkrir sentímtetrar skildu eyru hásetans í kojunni frá ísjökunum fyrir utan!

 

Í kvæði sínu lýsir annars Hannes Hafstein snilldarlega hafísnum og áhrifum hans:

í þokunni grúfir sig þögul Hel
um þrúðugar ísjaka-gjár,
og þéttar og þéttar að skipssúðar skel
treðst skarjaka-múgurinn flár,
nemur byrðings borð
eins og bryggja’ að storð
liggi beint upp á endalaust torg.
En úr ísjaka-þröng
yfir alhvíta spöng
rís einstöku háturnuð borg.

Þar er svo lýst hugprýði skipstjórans þegar hann fórnar sér til að bjarga skipinu og verður það ekki rakið frekar hér. En í síðasta erindinu minnist hann hetjunnar og varar við þeim ís sem er hafísnum verri:

Öllum hafís verri er hjartans ís,
er heltekur skyldunnar þor.
Efhann grípur þjóð, þá er glötunin vís,
þá gagnar ei sól né vor.
En sá heiti blœr,
sem til hjartans nœr
frá hetjanna fórnarstól,
bræðir andans ís,
þaðan aftur rís
fyrir ókomna tíma sól.

Hannes orti oft „karlmannlega“ og taldi að lognmolla væri síst til þess fallin að þroska menn og efla þeirra þor:

Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.

Þú þenur út seglin og byrðinginn ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

20141003-h52001

Um það leiti þegar Hannes var að brasa í hafísnum við Horn fæddist í Önundarfirði drengur sem skírður var Guðmundur Ingi. Hann varð seinna ljóðskáld og orti mikið um hið sæla sveitalíf á Kirkjubóli í Bjarnardal. Í einu kvæða sinna bendir hann á, líkt og Hannes, að eilíft logn sé ekki endilega ákjósanlegt:

Ljúft og sælt er lognsins yndi,
lífið milt sem rólegt vor.
Mér finnst þó að móti vindi
meiri liggi þroskaspor.

Facebooktwittergoogle_plus

Comments

comments


«