Erindi á málþingi Ferðamálasamtaka Vestfjarða

Haustið 2014

Westfjords

Frá því að menn námu land á Vestfjörðum fyrir einhverjum ellefu hundruð árum síðan hefur lífið hér snúist um það að nýta gæði náttúrunnar. Við erum til sem hluti af náttúrunni og lifum af því sem hún gefur. Þannig hefur okkur farnast best fram að þessu og þannig mun okkur farnast best í framtíðinni.

Lengst af snérist þetta einfaldlega um að ná í mat fyrir nánustu fjölskyldu með veiðum eða minniháttar ræktun. Þar var þá um hreinan og að mestu leyti sjálfbæran sjálfsþurftarbúskap að ræða þar sem flestar nauðsynjar fundust á heimaslóðum.

Seinna kom fram meiri verkaskipting og menn fóru að versla hver við annan og skiptast á áhugaverðum vörum. Menn skiptu við kaupmenn á svæðinu en Vestfirðingar höfðu líka oft aðgang að erlendum skipum sem veiddu við ströndina og stunduðu (oft ólögleg) viðskipti við þá.

Þarna var þó ekki um neinn eiginlegan iðnað að ræða og etv lítil hvatning til að „stækka við sig“ eða „auka umsvifin“. Margir Vestfirðingar höfðu tæplega heyrt um hluti eins og „iðnbyltingu“ eða „hagvöxt“, hvað þá „verga landsframleiðslu“…

Skáldið Einar Benediktsson brýndi menn til dáða um aldamótin 1900 og benti Íslendingum á að sækja fram: „Vissirðu, hvað Frakkinn fékk til hlutar? Fleytan er of smá, sá guli er utar. Hve skal lengi dorga, drengir, dáðlaust upp’ við sand?“

Jú, með Ísfirðinga í fararbroddi drifu menn sig í því að setja vélar í árabátana og seinna komu togarar. Með þessu stækkaði þéttbýlið og almenn velmegun jókst. Uppbyggingin byggðist fyrst og fremst á nýrri tækni og notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti – og við lifðum ekki sjálfbæru lífi lengur!

En hvað kemur þetta svo ferðaþjónustunni við? Jú, uppbygging á ferðaþjónustu á Vestfjörðum snýst fyrst og síðast um að nýta gæði náttúrunnar og er því náskyld allri annarri uppbyggingu á atvinnulífi og mannlífi almennt. Ekki er hægt að vinna áætlanir um fiskeldi í einu horninu, áætlanir um rekstur skóla eða sjúkrahúsa í öðru horninu og áætlanir um ferðaþjónustu í þriðja horninu.

Það er tiltölulega nýtilkomið að menn telji að einhver verðmæti geti verið fólgin í því að nýta náttúruna með því að láta hana einfaldlega eiga sig! Það væri etv hægt að hafa tekjur af því að bjóða fólk velkomið hingað til að ganga varlega um landið, kannski róa meðfram ströndinni eða einfaldlega sitja á steini og horfa á landið eða dýrin sem byggja það. Og enn eru margir sem telja að þetta sé ekki alvöru vinna, betra væri að gera eitthvað raunverulegt eins og að grafa skurði til að fylla með mold sem kom uppúr skurðunum sem við grófum í gær.

Þegar við Vestfirðingar hættum okkar sjálfbæra dorgi í byrjun tuttugustu aldarinnar vorum við helmingi fleiri en við erum í dag. Hverju hefur þá allt baslið, öll olíueyðslan, allur skurðgröfturinn skilað okkur?

Andskotinn hafi það… hversu mikið vandamál getur það verið að skapa sjö þúsund hræðum frábært viðurværi á sjálfbæran hátt? Höfum við kannski verið alltof upptekin af skammtímagróða og stefnir ekki margt af því sem við erum að gera burtu frá sjálfbærninni? Við látum taka frá okkur réttinn til sjálfbærra fiskveiða og færum okkur aftur í minniháttar smábátaveiðar „upp við sand“ (eins og skáldið sagði) en látum í staðinn plata okkur í ósjálfbæra starfsemi eins og laxeldi eða enn síður sjálfbæra námuvinnslu eins og kalkþörungagröft.

Ég er auðvitað ekki að tala fyrir því að við förum aftur í árabátaútgerð og flytjum í torfkofa – allavega ekki öll! Ég er afar bjartsýnn á framtíðina fyrir hönd okkar Vestfirðinga allra og ekki síst ferðaþjónustunnar. Við eigum einmitt að nota hugmyndaauðgi okkar til að nýta landkostina á nútímalegan hátt þannig að okkur líði vel að búa hérna. Við eigum full sjálfstrausts að eiga bein og milliliðalaus alþjóðleg viðskipti, ekki ólíkt því þegar bændur á Hornströndum seldu rekaviðar-stampa og ullarvettlinga beint til erlendra sjómanna á síðustu öldum eða þegar Ásgeirsverslun á Ísafirði gerði út eigin skip til siglinga með vörur milli landa. Við skipulag og uppbyggingu atvinnulífs og mannlífs á Vestfjörðum þurfum við að huga að fjölbreytilegri nýtingu á náttúrunni. Sjálfsagt er að virkja ár þar sem það er hagkvæmt og umhverfisvænt og vera með ýmiskonar iðnað, fiskeldi og landbúnað í bland við móttöku ferðamanna en ekki þurfa allir að geta gert allt allstaðar! Við þurfum að skipta aðeins með okkur landinu til að ná bestu mögulegri afkomu til lengri tíma. Það er til dæmis ekki hægt að selja ferðamönnum dýran aðgang að ósnertri náttúru og fylla svo alla firði af eldiskvíum eða kræklingabelgjum.

„Þjóðverjanum Sven Struman finnst sárlega vanta að móta stefnu varðandi fjölda ferðamanna og eins varðandi uppbyggingu við náttúruperlur. Þá segir hann væntingar margra ferðamanna ekki rætast; sálin sé farin og verið sé að breyta landinu smám saman í Disneyland. Skortur sé á framtíðarsýn og smákóngaháttur sé áberandi í greininni.

Það þýðir heldur ekki að stunda eilífan skítmokstur fyrir fólk í fjarlægum byggðum. Við eigum að gera hlutina sjálf og við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu verðum við að tryggja að arðurinn verði eftir hjá heimafólki og að líf okkar hér verði eins sjálfbært og kostur er um alla framtíð.
Manngert umhverfi eða „hrein“ náttúra? Hér ætla ég að nefna tvö dæmi um hvernig áherslur gætu verið mismunandi í ferðaþjónustu (þó að ég noti mitt nær-umhverfi þá gæti þetta átt við hvar sem er):

Manngert umhverfi – Skutulsfjörður

 • Um leið og fólk kemur til Ísafjarðar þá sendum við það beint útúr bænum aftur. Inní Djúp eða norður á Strandir. Hvernig væri að við leggðum meiri áherslu á ferðamennsku þar sem fólk eyðir tíma sínum í bænum, gistir á hótelum og gistiheimilum, borðar á veitingahúsum og sækir sér afþreyingu tengda menningu og útivist í nánasta umhverfi?
 • Landslag í Skutulsfirði er mjög mótað af umsvifum okkar: uppfyllingar á eyrinni, snjóflóðagarðar í fjallshlíðum, skíðalyftur og snjógirðingar, trjárækt o.s.frv. Þessar framkvæmdir hafa allar haft einhvern tilgang en þó að þær megi aldrei fá sjálfstætt líf eða verða markmið í sjálfu sér geta þær samt vel skilað okkur jákvæðum breytingum á umhverfinu. Við þurfum bara að tryggja að þær þjóni okkur í víðasta skilningi – ekki öfugt. Hugsa uppfyllingar, snjóflóðagarða og trjárækt þannig að það styðji við útivist og almennt betra mannlíf fyrir heimamenn og ferðafólk. Dæmi um slæm mistök er Pollgatan er þar sem hjarta bæjarins er slitið frá Pollinum og menn eru jafnvel að reyna að ganga enn lengra með því að hækka grjótgarðinn þannig að örugglega verði ekki hægt að sjá útá Pollinn frá eyrinni.
 • Gerum nýtt skipulag fyrir fjarðarbotninn allann þar sem íbúðabyggð og athafnarsvæði fyrir iðnað er samþætt útivistarsvæði fyrir heimamenn og gesti svæðisins. Tungudalurinn með golfvöll, Mýrarboltavelli, skógrækt, tjaldsvæði og sumarhúsabyggð. Setjum kláf þaðan uppá topp þar sem gamla efri lyftan var. Gönguskíða, svigskíða og fjallaskíðasvæði sem nýtist einnig fyrir fjallahjól og gönguleiðir á sumrin frá Seljalandsdal yfir Dagverðadal í Engidal með tengingar í Breiðadal og Botnsdal.
 • Þyrlu og flugferðir frá Ísafjarðarflugvelli uppá fjallatoppa: þyrluskíðun, þyrluhjólreiðar, þyrlugönguferðir…
 • Pollurinn og Skutulsfjörður allur miðstöð allskonar sjósports: kajakar, köfun, skútur og mótórbátar.
 • Hófleg umsvif í kringum skemmtiferðaskip. Náin samvinna milli hafnarinnar og ferðaþjónustunnar á svæðinu til að hámarka afrakstur til lengri tíma.
 • Tengingar áfram yfir í Álftafjörð, Önundarfjörð, Hnífsdal og Bolungarvík. Höldum áfram að styðja við umhverfisvænar virkjanir í nágrenninu og nýtum orkuna í heimabyggð.

„Hrein náttúra“ – Hornstrandir

 • Við höfum lítil sem engin eiginleg ósnortin víðerni á Vestfjörðum. Við erum alltaf í námunda við fólk eða í það minnsta í námunda við einhver mannvirki eða slóð eftir fólk. Oft er talað um að Hornstrandir séu einskonar krúnudjásn í Vestfirskri náttúru og víst er fagurt þar og frítt. Hér nefni ég tvo staði sem eru algjör andstæða við Skutulsfjörð og nánast alveg lausir við spor eftir mannleg umsvif Veiðileysufjörð og Lónafjörð.
 • Viðhalda ásýnd þessarra tveggja fjarða sem fullkominna óbyggða (undanskildar Kvíar sem eru á nesinu þarna á milli). Leyfa engar byggingar – engin mannvirki.
 • Framfylgja algjöru banni við ALLRI umferð vélknúinna farartækja á landi
 • Banna allt lágflug og lendingar fljúgandi farartækja, hvort sem er flugvéla eða þyrlna
 • Fjarlægja eða endurhanna þessa ljótu kamra sem þarna eru
 • Banna alla belgi, ból og föst legufæri
 • Takmarka stærðir og hámarks hraða skipa sem sigla um þessa firði eða gista þar með fólk. Til dæmis 10-15 farþegar, 10 mílna hraði.
 • Takmarka stærð hópa sem fara gangandi um svæðið eða tjalda
 • Fullkomið bann við öllum veiðum, kræklingarækt og allri botnvinnslu (kísilþörungar)

Árið 1995 hélt Páll Skúlason heimspekingur erindi á ráðstefnu og sagði meðal annars:
„Sú hugsun að menn eigi landið og geti ráðstafað því að vild sinni byggist bersýnilega á skelfilegri yfirsjón, mér liggur við að segja siðferðilegri lömun. Yfirsjónin felst í því að horfa framhjá, afneyta eða „gleyma“ merkingu og gildi landsins. Í stað þess að líta á landið sem eign til frjálsrar ráðstöfunar væri miklu nær sanni að líta svo á að menn hafi landið að láni frá forfeðrum sínum með því skilyrði að þeir skili því í betra ásigkomulagi til niðjanna. Slíkt væri í samræmi við þá hugsun að breytni sé ekki siðferðilega lofsverð nema hún sé forfeðrunum til sóma og komandi kynslóðum til eftirbreytni. En í rauninni er það landið sem tekur menn í fóstur og gerist fósturland þeirra. Þess vegna ber að virða landið og taka tillit til þess alveg eins og við tökum tillit til manna, dýra og blóma. Og jafnvel miklu fremur en þessara hverfulu lífvera“

Facebooktwittergoogle_plus

Comments

comments


«