Hornstrandir, náttúrferðamennska

Erindi Búbba skipstjóra, fjarflutt af Hauki Sigurðssyni, á málþingi í tilefni 40 ára afmælis friðlýsingar friðlandsins á Hornströndum

Mánudagskvöld 8. júní 2015, suðvestan 18-20 m/s. Nei, það er heldur hvasst til að sigla í kvöld þannig að við hinkrum til fyrramáls. En það væri samt freistandi að ná í skottið á þessum vindi og lensa í Hornvík áður en hann snýr sér í austanátt.
Þriðjudagsmorgun klukkan sjö erum við að græja okkur til brottfarar frá Ísafirði. Í seglbátnum Auroru eru tveir í áhöfn og fimm gestir. Gestirnir eru frá Kanada og Þýskalandi og við ætlum að sýna þeim Ísafjarðardjúp, Jökulfirði og ekki síst Hornstrandir. Rétt utan við Norðurtanga eru öll segl hífð upp og siglt fínustu „sætsúpusiglingu“ með stefnu á Ritinn. Jú, við náum að nýta vel suðvestan-áttina áður en hún klárast og hraðinn lengst af í kringum sjö mílur. Vindurinn er alveg að klárast við Ritinn en það er samt enn haugasjór þar og brýtur vel á klettunum. Hafi einhver hugsað sér að sækja svartfuglsegg í dag lítur út fyrir heldur erfiða lendingu.

Það er hellingur af snjó ennþá í fjöllunum uppaf Víkunum og við skimum eftir áhugaverðum skíðaleiðum. í Bæjardal uppaf Hlöðuvík sjáum við spennandi gil sem áhugavert gæti verið að athuga næsta vor. Það er ekki nema vika síðan við kláruðum skíðavertíðina. Við vorum í skíðaferðum í Jökulfjörðum í hverri viku frá fyrsta mars og það verður að viðurkennast að tíðin var heldur rysjótt í ár. Jú, það var hellingur af snjó en ekki margar vikur þar sem veðrið var til friðs. Það eru ekki nema 12 dagar síðan við lágum við akkeri í Veiðileysufirði í hálfgerðum vetrar-byl og komumst ekki í land til að skíða. En yfir hverju ertu að kvarta? Fóru ekki allir glaðir og brosandi heim? Jú, flestir koma til að upplifa náttúruna á hennar forsendum og taka því veðrinu eins og það er. Það er bara spennandi upplifun að liggja við akkeri í þreifandi byl. Í skútunni er hlýtt og notalegt, við eldum góðan mat, hlustum á tónlist eða horfum á bíómyndir eða einfaldlega ræðum málin og leysum öll heimsins vandamál yfir góðum kaffibolla.

En nú er komið sumar og Hornbjarg er farið að gægjast undan Hælavíkurbjarginu. Við erum búin að ræsa vélina en höldum stórseglinu uppi. Það er samt komið nánast logn. Við dólum inn með bjarginu, hringsólum aðeins í kringum Súlnastapann og virðum fyrir okkur fuglana. Tökum síðan stefnuna í Höfn og leggjumst þar.

Allir eru tilbúnir að teygja aðeins úr fótunum í landi og við græjum okkur í það. Það er rætt svolítið um umgengni og hegðun í þessu friðlandi manna og dýra. Er svolítil stéttaskipting kannski?
• Jú, við berum vissulega virðingu fyrir öðru ferðafólki á svæðinu. Reynum að hafa ekki hátt og ferðast ekki í of stórum hópum. Í raun reynum við að láta fara eins lítið fyrir okkur og mögulegt er, til að trufla ekki upplifun annarra ferðamanna.
• Ofar í virðingastiganum eru svo „íbúar“ svæðisins. Gestir okkar hafa mikinn áhuga á sögu svæðisins og hvernig fólk fór að því að búa hér í þúsund ár í góðri sátt við umhverfi sitt. Okkur þykir vænt um það hvernig flestir landeigendur hugsa um húsin sín og landið sitt. Við skemmum að sjálfsögðu ekki hlutina þeirra og reynum að trufla þá ekki.
• En allra efst í virðingastiganum hljóta að vera raunverulegir íbúar svæðisins. Þeir sem voru hér löngu fyrir tíma mannlegra norrænna landnema: fuglar, tófur, selir, hvalir og aðrar skepnur sem lifa á eða við Hornstrandir. Þeirra réttur hlýtur alltaf að vera mestur og okkur þykir vænst um þá. Og okkur þykir ekki bara afar vænt um þessa íbúa Hornstranda heldur líka um landið þeirra. Þetta snýst ekki bara um að hindra beinan skaða á dýralífi eða landslagi heldur virða rétt náttúrunnar til að vera til, sjálfs síns vegna en ekki bara á okkar forsendum. Okkur þykir gaman að skíða í Lónafirði en fjörðurinn er alveg jafn mikils virði þó engin komi þangað. Allar hávellurnar og æðakollurnar sem eyða vorinu í Rangala eiga rétt á friði og ró.

Friðlandið á Hornströndum er að mestu leyti ákaflega vel heppnuð tilraun. Landeigendur, opinberir aðilar, ferðaþjónusta og einstaklingar hafa þróað þarna einstakt samfélag þar sem þessir aðilar hafa að mestu átt gott líf með náttúrinni. En svona samfélag, eins og önnur, verður fyrir sífelldu áreiti og verður að þróast áfram í takt við tímann. Núna eru mestar ögranir tengdar auknum straumi ferðamanna og það er mikilvægt að þessir svokölluðu hagsmunaaðilar bregðist við. Náttúran hlýtur alltaf að vera í fyrsta sæti og allt sem við gerum verður að vera á hennar forsendum. Hagur ferðamanna, landeigenda og náttúrunnar hlýtur alltaf að fara saman og vandséð er hversvegna menn vildu eiga land á Hornströndum ef ekki væri vegna þessa einstaka samspils fólks og náttúru sem þróast hefur þar síðastliðin þúsund ár.

Við erum nú komin í land í Hornvík. Hér er tófa á vappi í fjörunni en rétt hjá svamlar óðinshana-par um í fjöruborðinu og nokkrar straumendur standa á steinum útí sjó. Sólskríkjan býður okkur velkomin en álftaparið sem við hittum er ekki eins ánægt að sjá okkur. Við sjáum ekkert fólk… það er enn of snemmt fyrir flesta túrista að koma norður. Við rifjum upp þegar við lágum hér í fyrrasumar og ritan var að ganga af göflunum í sílinu á víkinni. Undir voru bolta-þorskar og stóreflis-ýsur og í yfirborðinu torfur af silungi. Hér er allt að springa af lífi og náttúran í essinu sínu. Ennþá er æti fyrir svartfuglinn hér fyrir vestan þó að hann eigi mjög undir högg að sækja víðast hvar um norður Atlantshafið. Hér er nóg að svartfugli þó hann hafi aðeins aðlagað sig tófunni og auknum fjölda ritu og fýls.

Ég óska okkur öllum til hamingju með afmæli Hornstrandafriðlands. Hingað hef ég komið frá því að ég var smá-krakki og mun vonandi halda áfram að koma hingað það sem eftir er ævinnar. Ég vonast til að geta áfram boðið vinum mínum og gestum hingað til að njóta þessarar stórkostlegu náttúru og rifja upp líf Hornstrendinga í þúsund ár.

Skrifað í Hornvík 10. júní 2015.
Bestu kveðjur, Sigurður Jónsson

Facebooktwittergoogle_plus

Comments

comments


«