Umferð um Hornstrandir

Hornvik Hiking

Búseta á Vestfjörðum hefur alltaf byggt á því fyrst og fremst að nýta gögn og gæði lands og sjávar. Fyrst um sinn snérist þetta einfaldlega um að finna sér nóg að borða en seinna fóru menn að selja sínar afurðir og kaupa til baka aðra hluti sem þeir þörfnuðust. Um miðja síðustu öld töldu íbúar á því svæði sem við í dag oftast teljum til Hornstranda að það að hafa í sig og á úr náttúrunni væri ekki nóg og ákváðu að yfirgefa heimahagana. Yfirgefa svæði sem hafði brauðfætt fólk í þúsund ár en dugði ekki lengur. Margir yfirgáfu heimili sín með miklum söknuði en það voru líka til þeir sem voru þeirri stund fegnastir þegar þeir komust í burtu og sóru að koma þangað aldrei aftur.

Áratugina eftir að svæðið lagðist í eyði voru alltaf nokkrir sem héldu tryggð við átthagana og eins var slæðingur af ferðamönnum sem sóttu í þetta stórkostlega landslag og kyrrðina sem nú ríkti þar. Þar kom að landeigendur, opinberir aðilar og aðrir vinir svæðisins komu sér saman um að stofna friðland Hornstranda frá Skorarheiði og norðurúr. Þarna ætti náttúran og sögulegar minjar að eiga griðland um alla framtíð. Þarna gætu landeigendur átt athvarf í sínum gömlu bæjum og ferðamenn fengið að kynnast þessari undraveröld á forsendum náttúrunnar. Á þessum tíma töldu menn að lítil verðmæti væru fólgin í þessum gömlu landareignum, helst að þau hefðu tilfinningarlegt virði fyrir þá sem þarna höfðu búið og afkomendur þeirra.

Alltaf var slæðingur af ferðafólki á svæðinu og þrátt fyrir að því hafi fjölgað nokkuð er þetta enn fáfarið svæði og sama griðlandið fyrir landeigendur og ferðamenn og stefnt var að. Almenn sátt hefur verið um fyrirkomulag varðandi ferðir fólks um svæðið og umferð vélknúinna farartækja hefur alltaf verið bönnuð. Undantekningar frá því hafa verið tengdar mjög takmarkaðri notkun húseigenda á litlum tækjum eins og traktorum og fjórhjólum í kringum hús sín og mjög takmarkað flug einkaflugvéla og lendingar á örfáum stöðum. Eins voru takmarkaðar ferðir vélsleðamanna á vorin sem ekki hefur verið amast við. Um allt þetta hefur verið nokkuð víðtæk sátt. En hlutirnir breytast og þróast og mennirnir elta… undanfarið hefur þróun í gerð vélsleða gert það að verkum að í stað þess að einn og einn landeigandi keyri beint að sínu húsi eru tugir vélsleða í hópferðum um svæðið og komast nánast „hvert sem er“. Einnig hefur áhugi manna á lágflugi og lendingum lítilla flugvéla og þyrlna aukist ár frá ári. Þetta getur tæplega verið í takt við upprunalegan skilning á því hvernig friðlandið var hugsað?

En eiga menn ekki rétt á að ferðast hvert sem þeir vilja og á þann hátt sem þeim hentar? Eftirfarandi eru nokkrar setningar úr samantekt Umhverfisráðuneytisins sem varpa ágætu ljósi á þetta:

“Hinn forni réttur manna til frjálsar farar um landið hefur í gegnum tíðina verið tengdur þeim ferðamáta sem tíðkaðist hér frá fornu fari. Hann hefur því jafnan náð til þess að fara gangandi, ríðandi, á skíðum, sleðum eða bátum. Til forna fólst mikilvægi almannaréttarins í að greiða fyrir samgöngum milli landsvæða og landshluta. Í nútímasamfélagi er mikilvægasti þáttur almannaréttarins hins vegar líklega sá að eiga kost á að njóta útivistar í náttúrunni og leita þangað kyrrðar og næðis. Hugtakið útivist á við um för og dvöl úti undir beru lofti þar sem ferðamaðurinn er í náinni snertingu við landið sem farið er um.

Kittiwake fever in Hornvik, Hornstrandir.

Með tilkomu vélknúinna ökutækja og vegalagningu opnaðist almenningi aðgangur að stórum svæðum sem áður voru flestum ókunn. Hvorki hér á Íslandi né á hinum Norðurlöndum leiddi þessi þróun til rýmkunar almannaréttarins á þann hátt að hann næði almennt til farar á vélknúnum ökutækjum buy generic accutane.  Allt að einu er ljóst að almannarétturinn verður ekki túlkaður svo að hann veiti fólki almennan rétt til farar á vélknúnum ökutækjum um fjöll og firnindi utan skipulagðs vegakerfis. Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að af umferð vélknúinna ökutækja stafar hávaði sem skerðir mjög þá friðsæld sem annað ferðafólk sækist eftir með útivist.”

En landeigendur… eiga þeir engan rétt og afhverju ættu þeir að undirgangast þetta friðlands-fyrirkomulag ef ekkert kemur í staðinn?  Jú, það er rétt að framsýnir landeigendur afsöluðu sér ákveðnum réttindum þegar friðlandið var stofnað á sínum tíma. Kannski hefur það haft einhver áhrif þá að landið taldist ekki mikils virði miðað við þáverandi hugmyndir um landnýtingu. Sé landið einhvers virði núna er það einmitt vegna þeirrar einstöku stöðu sem friðlandið er búið að geta af sér. Takist mönnum að þróa áfram ferðamennsku og útivist sem byggir á upprunalegu hugmyndinni um að láta náttúruna njóta sín sem mest mun landið bara verða verðmætara.

En hvernig eiga landeigendur að njóta þessara auknu verðmæta? Nú er mikil umræða um gjaldtöku á ferðamannastöðum víða um land og nú er tækifæri fyrir Ísafjarðarbæ, landeigendur, Umhverfisstofnun og ferðaþjónustuaðila að taka ákveðið frumkvæði og marka nýja stefnu varðandi Hornstranda-friðlandið. Það er ljóst að almannaréttur er skýr varðandi það að öllum er frjáls för um landið án þess að greiða fyrir það. En það er sjálfsagt að skoða leiðir til þess að hluti tekna af ferðamönnum renni til áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu og beint eða óbeint til landeigenda. Við eigum að hafa þá framsýni til að bera að stýra þróuninni en ekki hrekjast úr einu horninu í annað eftir því hvernig vindarnir blása. Við eigum ekki að stefna að stórkostlegri fjölgun ferðamanna á svæðinu heldur auknum gæðum og þar með auknum tekjum fyrir hvern ferðamann. Þannig munu allir „græða“… ferðamenn, ferðaþjónustuaðilar, landeigendur og ekki síst náttúran sjálf.

Facebooktwittergoogle_plus

Facebooktwittergoogle_plus

Comments

comments


«